Send As SMS

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Bjórbannið.

Ég er núna að lesa um félagsfræði laga. Er búin að vera lesa heilmikið um bjórbannið, og alla lagasetningu í kringum það. Mér finnst þetta mikil skemmtilesning. Bjórbannið stóð frá 1934-1989. Nokkrum sinnum á þessu tímabili komu tillögur á þingi um að aflétta bjórbanninu. En andstæðingar bjórsins stóðu fast á sínu, og alltaf voru tillögurnar felldar eða þ.t. 1989. Mig langar að birta hér brot af þeim ummælum sem bjórandstæðingar létu hafa eftir sér á þingi;

„Og ég gæti ætlað og hef orðið þess var, að þessi áróður um ágæti 3.5% áfenga ölsins sé þegar farinn að grípa um sig í hugum unglinga og barna. Ég heyrði það fyrir nokkrum dögum að 13 ára skóladrengur hélt því fram að þeir krakkarnir þyrftu endilega að fara að fá þetta áfenga öl, það væri munur að hafa svona drykki til þess að rífa sig upp á morgnana, áður en þau færu í skólann og ennfremur væri þetta hentugt fyrir heimilin líka. Það væri ólíkt handhægara að grípa til ölsins ... en þurfa að fara að hita og búa til kaffi eða te.“

„Er flutningsmanni alveg ókunnugt um það að allar verksmiðjur og skipasmíðastöðvar í Bretlandi loka verkafólkið inni um vinnutímann og gæta þess alveg sérstaklega að hleypa engum út, fyrr en ölkrárnar eru allar komnar örugglega undir lás og loku?“

„...geti verið handlægt fyrir verkamenn að grípa til áfengs bjórs sér til hressingar, ekki síst ef honum er haldið að þeim með því, að hann sé þeim heilnæmur, vítamínríkur og hollur drykkur.“

„Mér þykir sennilegt að persónulegar þrár flutningsmanna liggi að baki tillögunnar. Líklega eru þeir þyrstir, og trúlega haldnir minnimáttarkennd vegna þess líkamlega vaxtarlag þeirra sé öðruvísi en þeir vilja hafa það. Þeir búast við að verða betur metnir af samtíðarfólki, ef þeir verða gildari um miðjuna, hafa heyrt, að öldrykkju fylgdu stærri magar, svonefndar bjórvambir, og telja þær eftirsóknarverðar....“

Þessi málflutningur varð til þess að tillögur um að leyfa bjór á Íslandi voru alltaf felldar. Okkur þykir þetta kannski fyndið í dag, en eiga börnin/barnabörnin okkar ekki eftir að hlægja af þeim málflutningi sem er oft í gangi á þingi í dag?